Greiðsluaðlögun

Með lögum um greiðsluaðlögun einstaklinga nr. 101 frá 2010 sem tóku gildi 1. ágúst 2010 var einstaklingum sem eiga í verulegum greiðsluerfiðleikum gert kleift að endurskipuleggja fjármál sín og koma á jafnvægi milli skulda og greiðslugetu þannig að raunhæft væri að þeir gætu staðið við fjárskuldbindingar sínar um fyrirsjáanlega framtíð.

Einstaklingum sem uppfylla skilyrði laganna er heimilt í kjölfar gagnaöflunar að óska þess við umboðsmann skuldara að hann samþykki umsókn um heimild til að leita eftir greiðsluaðlögun með samningi við kröfuhafa. Sá samningur getur bæði tekið til krafna sem tryggðar eru með veðrétti í eign skuldara og krafna sem engin slík trygging er fyrir eða einungis til krafna af öðrum hvorum meiði.

Réttarbót aðstoðar einstaklinga við gerð slíkrar umsóknar til umboðsmanns skuldara og gagnaöflunar vegna hennar gegn hóflegu endurgjaldi. En mikilvægt er að vanda vel til verka þegar fólk sækir um heimild til að leita eftir greiðsluaðlögun. Þá er einnig nauðsynlegt að öll tilskilin gögn fylgi slíkri umsókn því ekki er hægt að hefja vinnslu umsóknar fyrr en öll gögn hafa borist.

Þeir sem geta leitað greiðsluaðlögunar eru þeir einstaklingar sem sýna fram á að þeir séu eða verði um fyrirsjáanlega framtíð ófærir um að standa í skilum með fjárskuldbindingar sínar. Ef ætla má að einstaklingur geti ekki eða eigi í verulegum erfiðleikum með að standa við fjárskuldbindingar sínar um fyrirséða framtíð með tilliti til eðlis skuldanna, eigna og fjárhagslegra og félagslegra aðstæðna, telst hann ófær um að standa við fjárskuldbindingar sínar. Sé umsókn um greiðsluaðlögun samþykkt af umboðsmanni skuldara skipar hann skuldara umsjónarmann en Réttarbót tekur að sér slík umsjónarmannastörf. Þau eru skuldara að kostnaðarlausu.

Þann 14. október 2010 samþykkti Alþingi lagabreytingu sem felst í því að tímabundin frestun greiðslna hefst þegar umsókn um greiðsluaðlögun hefur verið móttekin hjá umboðsmanni skuldara, en ekki þegar umsókn er samþykkt eins og áður var. Breyting þessi er afturvirk að því leyti að hún nær til allra umsókna um greiðsluaðlögun sem þegar hafa verið mótteknar hjá umboðsmanni.

Afgreiðsla umsóknarinnar
Eins og fram kemur á heimasíðu umboðsmanns skuldara er umsóknin yfirfarin hjá embættinu til þess að athuga hvort öll gögn séu til staðar en einnig kallar það eftir gögnum frá fjármálafyrirtækjum. Haft er samband við umsækjandann ef eitthvað vantar og honum gefinn kostur á úrbótum.

Umboðsmaður skuldara verður að ganga úr skugga um að í umsókninni  komi fram allar nauðsynlegar upplýsingar og getur hann ef þörf krefur krafist þess að umsækjandinn staðfesti þær með skriflegum gögnum. Umboðsmaður skuldara skal auk þess afla frekari upplýsinga sem hann telur geta skipt máli varðandi skuldir, eignir, tekjur og framferði umsækjandans, áður en hann tekur ákvörðun um hvort heimild sé veitt til að leita greiðsluaðlögunar. Umsókn telst ekki fullbúin fyrr en þessari vinnu er lokið. Þrátt fyrir þetta þá nægir það að umsókn hafi borist umboðsmanni skuldara til þess að tímabundin frestun greiðslna verði virk.

Ef umboðsmaður skuldara synjar umsókninni getur umsækjandinn kært þá ákvörðun til kærunefndar greiðsluaðlögunarmála innan viku frá því að umboðsmaður tilkynnir honum um ákvörðun sína. Réttarbót aðstoðar einstaklinga við slíkar stjórnsýslukærur gegn hóflegu endurgjaldi.

 

Áhugaverðir tenglar